Jóga og núvitund í hjarta Toscana 7. - 14. júní 2025
Jóga, menning, gleði, núvitund, lífrænn ítalskur matur, hreyfing, Toscana !!!
Viltu koma með í endurnærandi vikuferð til Ítalíu í sumar? Við Dóra og Laufey verðum leiðbeinendur í þessari ferð sem er á vegum ferðaskrifstofunnar Island Tours á Ítalíu.
Við gistum á yndislegum búgarði nálægt Siena og njótum þess að slaka á og skoða okkur um í fallegu umhverfi Toscana.
Boðið verður upp á létt jóga við allra hæfi á hverjum morgni og jóga nidra slökun eða hugleiðslu að kvöldi. Auk þess verður fræðsla um núvitund, jógaspeki, ítalska menningu og fleira skemmtilegt.
Farið verður í dagsferð í rútu með leiðsögumanni, þar sem skoðaðir verða fallegir og sögufrægir bæir í Toscana. Auk þess gefst kostur á að heimsækja áhugaverða bæi í nágrenninu, skoða sig um, setjast á kaffihús eða fara í vínsmökkun.
Í þessari ferð er áherslan lögð á vellíðan, slökun, hæfilega hreyfingu og það að njóta líðandi stundar og það er svo sannarlega auðvelt á þessum stað þar sem bæði er hægt að taka það rólega í fallegu umhverfi búgarðsins og einnig fara í gönguferðir, hjólreiðatúra, skoðunarferðir, borða góðan mat og drekka í sig menningu Ítalíu.
Ferðin er skipulögð og seld af ferðaskrifstofunni Island Tours á Ítalíu. Greiðslur vegna ferðarinnar greiðist til Island Tours sem ber ábyrgð á framkvæmd ferðarinnar. Fararstjóri er Guðrún Sigurðardóttir eigandi Island Tours og leiðbeinendur í núvitund og jóga eru Dóra Axelsdóttir og Laufey Arnardóttir.
Nánar um ferðina
Hver kannast ekki við rómantískar hæðir Toscana, þaktar vínviði og síprustrjágöngum sem liggja upp að glæsilegum steinbyggðum búgörðum fyrri tíma? Þetta er þekktasta hérað Ítalíu, þar sem menning fyrri alda drýpur af hverju strái, hvort sem um er að ræða listir, matar- eða vínframleiðslu, menningu, svo ekki sé minnst á bæi héraðsins sem hver og einn er gimsteinn út af fyrir sig.
Í þessari einstæðu ferð ætlum við að dvelja í hjarta Toscana, á búgarði frá 17. öld sem stendur uppi á hæðunum í nágrenni Siena og njóta alls þess sem búgarðurinn og umhverfið hafa uppá að bjóða. Jóga, hugleiðsla, núvitund, slökun og ýmislegt fleira verður í boði en einnig gefst nægur tími til að skoða umhverfið og fara í ferðir um nærliggjandi sveitir.
Búgarðurinn okkar var upphaflega sumardvalarstaður kirkjunnar í Arezzo en hefur nú verið í eigu sömu fjölskyldunnar sem hefur rekið hér sveitagistingu og veitingastað í meira en 30 ár. Hér eru ræktaðar ýmsar lífrænar matvörur sem eru kjarni þess sem veitingastaðurinn býður upp á, ívafið hinni margrómuðu Toscana matarhefð. Á búgarðinum er ýmis aðstaða, svo sem inni- og útisundlaugar, ásamt spa þar sem meðal annars er hægt er að fara í nudd, hesta- og hjólaleiga, o.fl.
Í þessari ferð er áhersla lögð á vellíðan, slökun og sjálfsumhyggju og svo að sjálfsögðu gleðina! Á hverjum morgni verður boðið upp á mjúkt jóga við allra hæfi ásamt stuttri hugleiðslu og slökun. Eftir morgunmat verða stutt fræðsluerindi í boði um núvitund, jógaspeki og aðra sjálfsrækt. Jóga nidra djúpslökun eða núvitundarhugleiðsla verður svo aftur seinni part dags fyrir þá sem vilja. Þess á milli munum við njóta alls sem Toscana hefur upp á að bjóða, skreppa í gönguferðir og skoðunarferðir í nærliggjandi bæi eða slaka á í yndislegu umhverfi búgarðsins.
Farið verður í dagsferð í rútu með leiðsögumanni þar sem skoðaðir verða einhverjir fallegustu og frægustu bæir Toscana, annars vegar hinn dásamlegi miðbær Siena sem segja má að sé höfuðborg svæðisins og hins vegar ævintýralegi miðaldabærinn San Gimignano. Einnig verða skipulagðar styttri skoðunarferðir til áhugaverðra staða í nærliggjandi umhverfi búgarðsins.
Fararstjóri í ferðinni er Guðrún Sigurðardóttir. Guðrún hefur búið að mestu á Ítalíu síðan 1980 en skiptir nú tíma sínum milli Ítalíu og Íslands. Hún hefur starfað við flestar hliðar ferðamennsku; leiðsögumaður á Íslandi og Ítalíu til langs tíma en auk þess að vera með próf frá Leiðsögumannaskólanum er hún með masterspróf í ferðamálafræði. Guðrún er einnig markþjálfi. Hún er eigandi Island Tours sem er ein helsta ferðaskrifstofa fyrir Íslandsferðir á Ítalíu, en skipuleggur einnig göngu- og náttúrutengdar ferðir til Ítalíu.
Leiðbeinendur í ferðinni verða Dóra Axelsdóttir og Laufey Arnardóttir. Þær munu sjá um kennslu í jóga og núvitund auk ýmiss konar fræðslu. Dóra og Laufey hafa báðar aflað sér menntunar sem núvitundarkennarar. Laufey er reyndur jógakennari og jóga nidra leiðbeinandi. Dóra og Laufey búa yfir mikilli reynslu af kennslu og námskeiðahaldi, en þær halda regluleg námskeið hjá Lifandi (www.lifandinuna.is) í núvitund og jóga. Þær hafa brennandi áhuga á mannrækt, heilbrigði og vellíðan og elska Ítalíu.
Guðrún Dóra Laufey
Verð fyrir 2025 er ekki komið.
Innifalið í verði er:
-
Gisting í tveggja manna herbergi með morgunmat
-
Gistináttaskattur
-
Sex kvöldverðir (þríréttað, vín (1/4 l), vatn og kaffi)
-
Tveir hádegisverðir
-
Jógaprógram og fræðsla á hverjum degi
-
Heilsdagsferð um Toscana með leiðsögn
-
Leiðsögn í styttri ferðum
-
Ýmis aðstaða á búgarðinum, t.d. inni- og útisundlaug, tennisvöllur, hjóla- og hestaleiga, nudd o.fl.
Nánari upplýsingar á gudrun@islandtours.it og lifandi@hugun.is.
Ferðin er á vegum Island Tours, en athugið að skráning í ferðina fer fram á lifandi@hugun.is.
Nánar um ferðaskilmála hér:
Umsagnir ferðalanga:
Kristín Baldursdóttir
Í alla staði einstök ferð ef horft er til dagskrár, aðstöðu og upplifunar í heild sinni enda frábærir fagmenn sem skipulögðu ferðina og leiddu hópinn. Morgunjógað og kvöldslökunin voru ætið meiriháttar!
Guðrún Geirsdóttir
Ég hef farið víða en þessi ferð var paradís á jörðu og ekki spurning að ég kem í næstu ferð líka. Pieve a Salti er dásamleg staður og allar máltíðir til fyrirmyndar. Morgunjógað og kvöldslökunin voru yndisleg.
Oddný Ólafsdóttir
Ferðin í heild var yndisleg, fallegt umhverfi, skemmtilegar skoðunarferðir, góð slökun. Hefði alveg mátt vera aðeins lengri. Allt umhverfi er yndislegt, ekkert áreiti og hægt að slaka algjörlega á. Innisundlaugin var góð til að kæla sig niður. Herbergin á Pieve a Salti voru "plain", en allt hreint og allt sem þurfti þar. Ég er algjör byrjandi í jóga, en mér fannst það mjög gott. Kvöldslökunin var yndisleg.
Anna Laxdal Þórólfsdóttir
Svona ferð ætti að vera á dagskrá á hverju ári. Ferðafélagarnir voru frábærir og sjaldan sem maður upplifir svona góða orku, jafnvægi og jákvæðni í svo stórum hópi. Mér fannst gangan að "trénu" ógleymanleg. Fræðslan um jóga og núvitund var mjög fróðleg. Ferðin var bæði þroskandi og gefandi fyrir mig.
Rut Guðmundsdóttir
Frábær ferð í alla staði, mig langar strax aftur! Pieve a Salti er yndislegur staður að öllu leyti. Frábært hvað maður var einn í heiminum. Maturinn var mjög góður, gaman að smakka vörurnar sem eru ræktaðar á búgarðinum og dásemd að borða kvöldverðinn úti á verönd veitingastaðarins. Yndi að byrja daginn á jóga á morgnana enda er Laufey frábær jógakennari! Ótrúlega skemmtilegur hópur, frábær fararstjórn og leiðsögn.