top of page

Ég fæddist 15. ágúst 1962 í Reykjavík og ólst þar upp við gott atlæti. Að loknu BA námi í ensku og almennum málvísindum frá Háskóla Íslands vorið 1985 hélt ég til London í framhaldsnám við University College London og lauk þaðan meistaraprófi (MA) í ensku. Eftir að heim var komið fór ég í kennsluréttindanám við HÍ og hóf kennslu við Menntaskólann í Reykjavík haustið 1987, en þar starfaði ég í rúmlega 25 ár.

     Ég hef stundað jóga og hugleiðslu lengi og hef allt frá unglingárum haft áhuga á hinni andlegu leið. Árið 2009 lauk ég jógakennaranámi frá Jógakennaraskóla Kristbjargar og vorið 2014 útskrifaðist ég úr framhaldsnámi í jógakennarafræðunum (560 t.). Nú sem stendur er ég í enn frekara framhaldsnámi í jógakennarafræðum og jógaþerapíu (860 t.) og lýk því árið 2020.  Í námi mínu hef ég verið svo lánsöm að njóta kennslu frábærra kennara, Kristbjargar Kristmundsdóttur og Sri Swami Ashutosh Muni. Jógaástundunin er ómissandi hluti af lífi mínu og fer ég á hverju ári utan til kennara míns til að læra meira um jógafræðin og dýpka iðkun mína. Árið 2018 fór ég svo í kennaranám í iRest yoga nidra (djúpslökun) hjá James Reeves í Oxford.

     Segja má að ég hafi fyrst kynnst núvitund (mindfulness) í gegnum jógað, en vakandi athygli í augnablikinu er órjúfanlegur þáttur jógaástundunar.  Frá árinu 2009 hef ég farið á ýmis námskeið í núvitund og 2012 lauk ég 30 ECTS eininga eins árs námi í hugrænni atferlismeðferð (HAM) frá Endurmenntun Háskóla Íslands í samvinnu við Oxford Cognitive Therapy Centre og kynti það enn frekar undir áhuga minn á núvitund. Árið 2014 lauk ég námi til kennararéttinda í núvitund hjá Vidyamala Burch, stofnanda hinna virtu núvitundarsamtaka Breathworks á Englandi, en hún hefur sérhæft sig í að nýta aðferðir núvitundar til að bæta lífsgæði fólks með verki. Í árslok 2012 lauk ég svo námi í markþjálfun frá Evolvia og hef nú hlotið alþjóðlega vottun, ACC.

     Ég held námskeið í núvitund, jóga og jóga nidra og tek fólk í markþjálfun og ráðgjöf byggða á núvitund, jóga og hugrænni atferlismeðferð.

 

 

Laufey Arnardóttir

 

 

Ég er fædd 4. maí 1956 og uppalin í Reykjavík. Ég ólst upp í Hlíðunum og átti yndislega áhyggjulausa barnæsku. Ég er  grunnskólakennari að mennt og árið 2005 lauk ég sérkennaraprófi frá KHÍ. Ég hef starfað við kennslu í tæp 30 ár og hef mikinn áhuga á vellíðan og þroska manneskjunnar. Ég hef sótt ótal námskeið sem tengjast þessum áhuga mínum. Vorið 2012 lauk ég sérfræðinámi frá EHÍ í samvinnu við háskólann í Oxford í hugrænni atferlismeðferð. Vorið 2013 lauk ég námi í markþjálfun.

Ég hef haft áhuga á jóga og hugleiðlsu frá unglingsárum. Hef verið leitandi í þeim efnum og prófað ýmsar formgerðir. Þegar ég var við nám í hugrænni atferlismeðferð kynntist ég núvitund/mindfulness og fannst þá eins og ég væri komin heim. Þarna var það sem ég hafði leitað svo lengi að. Fór á átta vikna MBCT námskeið og hef síðan verið hugfangin af þessum fræðum og fundið þörf hjá mér til að kynna þetta fyrir sem flestum. Ég tók kennaranámskeið við háskólann í Bangor og er nú að halda átta vikna MBSR námskeið í núvitund.

Ég er gift og á þrjú uppkomin börn. Ég hef unnið ýmiss störf um ævina, en flest hafa þau falist í samskiptum og fræðslu. Ég hef brennandi áhuga á öllu sem snýr að mannlegum þroska, samskiptum, heilbrigði og vellíðan. Ég hef líka mikla ánægju af alls kyns útiveru, göngum og hjólreiðum og iðka það með góðum vinum. Tónlist, bóklestur, samvera með vinum og fjölskyldu og handavinna eiga líka stóran hluta af frítíma mínum.

Ég hef búið erlendis í nokkrum löndum og finnst ómetanlegt að hafa kynnst þankagangi og menningu annarra þjóða og jafnframt að sjá og finna hversu margt við eigum sameiginlegt.

Ég held námskeið í núvitund/mindfulness, tek fólk í markþjálfun og er með ráðgjöf og fræðslu um hugræna atferlismeðferð.

Dóra Axelsdóttir

 

 

bottom of page