top of page

Ávinningur af núvitund:

 

 • meiri sátt

 • meira jafnvægi

 • meiri sjálfsvinsemd

 • meiri sjálfsþekking

 • minni streita

 • minni kvíði

 • betri einbeiting

 • meiri hugarró

 • geta til að njóta líðandi stundar betur

 • betri skilningur á hugsunum

 • betri svefn

 • betri verkjastjórnun

Núvitund (mindfulness)

 

 

 

Á ensku er talað um „mindfulness“ en á íslensku eru notuð ýmis heiti, núvitund, árvekni, gjörhygli, vakandi athygli eða vakandi hugur.

Núvitund (mindfulness) er einföld hugleiðslutækni sem hefur reynst öflug leið til að minnka streitu og auka vellíðan og meðvitund í daglegu lífi.

 

Núvitund er einfaldlega það að velja að láta athyglina hvíla á líðandi stund á hverju andartaki, án þess að taka afstöðu eða fella dóma. Hún snýst um það að lifa í augnablikinu, að taka eftir hvað er að gerast á meðan það er að gerast og velja meðvitað hvernig við bregðumst við reynslu okkar í stað þess að láta stjórnast af vanahegðun. 

Lífið er samsett úr augnablikum sem við getum kallað núið. Ef við erum ekki til staðar í núinu erum við í raun og veru ekki til staðar í lífinu. Oft erum við föst í viðjum vanans og bregðumst við án þess að taka meðvitaða ákvörðun um það. Á núvitundarnámskeiði lærum við aðferðir til að staldra við og skoða leiðir hugans. Núvitund snýst um að verða meðvitaðri um hugsanir sínar, skynjanir og tilfinningar og læra að vera það án þess að vera stöðugt að dæma sig. Við lærum að við getum valið hvert við beinum athygli okkar og hver viðbrögð okkar verða. 

 

Hugurinn getur verið harður húsbóndi þar sem okkur hættir oft til að taka hugsanir okkar of alvarlega og leyfa þeim að hafa óæskileg áhrif á líðan okkar. Það getur falist mikið frelsi í því að sjá að maður þarf ekki að líta á hugsanir sem staðreyndir eða taka þeim sem heilögum sannleika.

Núvitund er ákveðin nálgun á lífið og hvernig maður vill lifa því. Markmiðið er að lifa í augnablikinu, vera meira vakandi og lifandi í stað þess að vera alltaf á sjálfstýringu. Á sjálfstýringu fljótum við áfram og tökum varla eftir því hvað við erum að gera og upplifa. Núvitund snýst ekki um að komast á einhvern ákveðinn stað í lífinu eða í eitthvert ákveðið ástand, heldur snýst hún um að vera eins og við erum. Við erum alltaf að gera eitthvað – en við gleymum oft að vera þar sem við erum raunverulega hverju sinni.

 

Markmiðið er að vera til staðar á augnablikum lífsins og taka eftir tilfinningum, hugsunum og skynjunum. Með þessu eflist lífshamingja okkar og lífið verður ánægjulegra og áhugaverðara. Þetta þýðir líka að við þurfum að læra að takast á við nú-ið þegar það er ekki eins ánægjulegt, þegar það er erfitt og óþægilegt. Til lengri tíma er það áhrifarík leið til að takast á við óhamingju og til að öðlast sátt og hugarró.

Á núvitundarnámskeiði fléttast saman vestræn sálarfræði og austræn viska. Bandaríski læknirinn Jon Kabat-Zinn, sem starfaði við Háskólann í Massachusetts, er upphafsmaður svokallaðra MBSR streitunámskeiða á Vesturlöndum. Hann þróaði átta vikna meðferðarnámskeið við streitu og kallaði það Mindfulness-Based Stress Reduction (MBSR) fyrir rúmum þrjátíu árum. Við það nýtti hann sér þekkingu sína á yoga og fornri austrænni hugleiðslutækni. Margir aðrir fræðimenn og meðferðaraðilar víða um heim hafa síðan notað þessa tækni og hefur aðferðin verið nýtt með öðrum meðferðarúrræðum og þótt skila góðum árangri. Niðurstöður fjölda rannsókna hafa sýnt fram á gildi ástundunar og er aðferðin nú samþykkt af vestrænum vísindum.

 

Núvitund hefur meðal annars reynst vel við að draga úr streitu, kvíða, þunglyndi, svefnerfiðleikum, einbeitingarskorti og viðvarandi verkjum. Hún eykur hæfni til að hlúa að sjálfum sér og vera meira til staðar á hverju augnabliki lífsins og þar með njóta lífsins betur.

 

 

bottom of page